Pages

Thursday, January 23, 2014

Blómkálspizza

Það er mikil tilraunastarfsemi í eldhúsinu hjá okkur mæðgum þessa dagana. Í kvöld ákváðum við að prófa að búa til blómkálspizzu í tilefni af frumsýningunni á Biggest Loser. Ég var búin að horfa á myndband af manni sýna þessa uppskrift og hún var svo einföld að ég lagði hana bara á minnið (þetta getur maður!). Pizzan heppnaðist mjög vel og var rosalega góð. Get sko alveg hugsað mér að gera svona aftur! Hollt og gott, maður kvartar nú ekki undan því.

Hér er uppskriftin í máli og myndum:

Hráefnin sem þarf í botninn
Í botninn notaði ég 2 egg, 2 bolla af Mozzarella osti og 2 bolla af rifnu blómkáli. Ég notaði bara osta rifjárn til að rífa blómkálið niður mjög smátt. Svo hrærði ég þetta saman með skeið og hnoðaði aðeins saman með höndunum. Þetta er soldið blautt og manni dettur eiginlega ekki í hug að þetta geti orðið að botni.

Búin að hræra saman
Þegar ég var svo búin að hræra þetta eins vel saman og ég gat þá hellti ég úr skálinni á bökunarpappír sem ég var búin að koma fyrir á ofnskúffunni. Þar flatti ég svo vel úr "deiginu" með höndunum. Þetta á að verða soldið þunnt. Deigið er blautt, það er alveg eðlilegt, svo það þarf ekkert að óttast það.

Deigið tilbúið á bökunarpappírnum
Því næst skellti ég deiginu inní ofninum. Maðurinn í myndbandinu talaði um að þetta þyrfti 15 mínútur í ofninum, en ég þurfti að hafa mitt á 180 gráðum í 20 mínútur, kannski er ég bara með svona lélegan ofn, hver veit. En ég myndi allavega fylgjast með þessu bara.

Áleggið sem við notuðum
Á meðan botninn var að bakast í ofninum nýtti ég tímann til að skera niður áleggið. Við ákváðum að nota kjúklingaskinku og smávegis af pepperoni, og svo rauðlauk á minn helming. Næst mun ég klárlega setja fleiri álegg, ísskápurinn minn var bara eitthvað svo tómur núna.

Deigið orðið að pizzabotni
Þegar botninn var svo tilbúinn tók ég hann útúr ofninum og lét hann kólna í smástund. Svo smurði ég á hann pizzasósu og hlóð álegginu á. Skellti osti og svörtum pipar svo þar ofan á. Að lokum setti ég svo pizzuna aftur inní ofninn í sirka 7-10 mín.

Pizzasósan komin á

Meistarastykkið tilbúið

Voila!
Ég mæli hiklaust með því að þið prófið þessa. Alveg þess virði! :) 

xx
Rósa


No comments: