Pages

Thursday, December 20, 2012

Aðgát skal höfð.....

Eins og lesendur þessa bloggs vita væntanlega þá er ég mikill aðdáandi líkamsræktar og fitness. Ég er búin að "læka" margar af frægustu og flottustu fitness stelpum heimsins, og líka þeirra sem eru ekkert þekktar. Það sem mér finnst alveg rosalega sláandi þegar maður er að fylgjast með þessum síðum er hvað fólk er fljótt að dæma. Fólk situr fyrir framan tölvuna heima hjá sér og rakkar ókunnugt fólk niður, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ég veit ekki með ykkur, en ég myndi persónulega aldrei skrifa niðrandi komment um aðra manneskju á mynd af henni. Það eru ekki allir með sama smekk á hvað þykir fallegt og það hafa ekki allir sömu áherslur varðandi útlit, klæðaburð eða hvað sem það er. Maður hefur séð til dæmis eftir fitnessmót þegar fæðubótaefnabúllurnar pósta myndum af mótunum þannig að almenningur hefur aðgang að þeim (ekki bara vinir og skyldmenni fitness-fólksins sem er að keppa) að fólk hikar ekki við að kommenta allskonar niðrandi hluti undir myndirnar. Fólk skrifar til dæmis: "á þetta að vera fallegt?", "þetta er nú ekki kvenlegt", "þetta er nú orðið fullmikið af hinu góða" og "oj nei takk" og ýmislegt í þessum dúr. Áttar fólk sig ekki á því að það er að kommenta á myndir af ACTUAL fólki, sem hefur tilfinningar og mun að öllum líkindum sjá þessar myndir og þar af leiðandi öll kommentin líka. Ég veit ekki hvaða tilgangi svona komment eiga að þjóna en það fyrsta sem manni dettur í hug er óöryggi. Fólki hlýtur að líða eitthvað illa í eigin skinni fyrst það hefur svona mikla þörf til að setja út á aðra.

Ég skil mjög vel að það finnist ekki öllum fitness-kroppar flottir og sumum finnst þetta ekki kvenlegt og þar fram eftir götunum, en mér finnst það samt ekki réttlæta niðrandi skrif undir mynd af manneskjum, í þeim eina tilgangi að særa. Allir hafa rétt á sínum skoðunum, það er klárt mál, en það er bara spurning um að fólk tjái þær á viðeigandi hátt, á réttum vettvangi. Hvað er til dæmis fólk sem finnst fitness ekki vera fallegt að skoða fitness-myndir? Það skil ég ekki alveg. Ég sé oft myndir birtast af bílum eða öðrum óspennandi hlutum í mínum augum í news-feedinu hjá mér á facebook og þá bara skrolla ég yfir það. Ég færi aldrei að opna myndirnar og kommenta á þær hvað þetta væru ljótir bílar.....æji þetta er kannski asnalegt samlíking, en kannski hægt að velta þessu aðeins fyrir sér.

Þetta á svo ekkert endilega bara við um fitness-fólk, heldur líka fólk sem hefur kannski farið í einhverjar lýtaaðgerðir eða grennt sig mikið eða gert eitthvað sem breytir útliti þess. Segjum sem svo að manneskja sé búin að léttast um x mörg kíló og setur inn árangursmynd af sér og fólk fer að kommenta undir myndina: „mér fannst þú nú fallegri fyrir“ eða „er þetta ekki komið gott?“. Mér finnst ég varla þurfa að útskýra af hverju mér finnist svona komment óþörf. Ef að maður er virkilega hræddur um heilsu manneskjunnar þá á maður frekar að tala við hana sjálfa, en ekki setja svona leiðindakomment undir myndir af henni.

Ef þú hefur ekkert gott að segja, slepptu þá að kommenta! Eitthvað yrði sagt ef maður myndi kommenta undir mynd af manneskju í yfirþyngd: „jæja, hvernig væri nú að hætta í pizzunum“ eða „oj, allt of mikið spik“!! Nei fólk gerir það ekki af því að það veit að slík komment þjóna engum tilgangi nema að særa, og að sjálfsögðu vill enginn særa feitt fólk. En kannski er allt í lagi að særa grannt fólk, eða fit fólk, eða fólk sem hefur náð góðum árangri? Maður spyr sig!

Persónulega set ég allt fólk undir sama hatt, hvernig svo sem það lítur út, og myndi aldrei særa neinn vísvitandi, til að upphefja sjálfa mig, og hvet ég alla til að gera slíkt hið sama.

Lisa áður

Þetta er hún Lisa Marie sem er alltaf með æfingamyndbönd á Body Rock. Hún er alltaf í fanta-formi og mjög léttklædd í myndböndunum sínum. Um daginn fór hún svo í sílíkon aðgerð og lét fylla í varirnar og svo hefur hún aðeins grennst líka. Þegar maður skoðar kommentin undir nýju myndunum hennar á facebook þá verður maður hálf orðlaus. Alveg sama hvað hún hefur gert við sig og sinn líkama, þá er hún ennþá manneskja með tilfinningar og á það ekki skilið að fólk sé að rakka hana niður fyrir sínar ákvarðanir sem koma engum öðrum við. Hvað kemur það fólki við útí bæ hvernig brjóstin á henni líta út eða hversu grönn hún er? Ef þér finnst þetta ekki fallegt, hættu þá að horfa!

Lisa núna

No comments: