Pages

Monday, January 25, 2010

EM í bekkpressu

Það er allt að verða brjálað út af þessum blessaða handbolta. Klukkan þrjú í dag voru öll fjögur sjónvörpin í vinnunni sett á RÚV og slökkt á tónlistinni í útvarpinu til þess að geta hlustað á leikinn. Svo settust bæði viðskiptavinir og starfsmenn fyrir framan imbann og öskruðu Neeeeiiii eða Jáááá til skiptis eftir því sem við átti. Ég veit hreinlega ekki hvort það sé eitthvað að mér eða hvað - en ég er bara alls ekki neitt spennt fyrir þessu. Mér er bara alveg nokk sama hver vinnur, hver skorar og hvaða lið eru að spila. Ef það væri ekki fyrir facebook og alla þessa handbolta-statusa þá hefði ég sennilega ekki einu sinni vitað að EM væri byrjað (fyrr en í dag)..........

Ég fór heim aðeins fyrr úr vinnunni í dag vegna veikinda og náði þar af leiðandi ekki að taka æfingu. Ég er búin að vera með hálsbólgu-kvef pest í heila viku núna og það er bara orðið ansi þreytandi. Er búin að prófa flest öll ráð sem fólk hefur ráðlagt mér, en ekkert virðist virka. Eins gott að ég verði búin að jafna mig fyrir næstu helgi - þá er ég nefnilega að fara að keppa á Íslandsmótinu í bekkpressu sem haldið verður á Akranesi. Svoleiðis mót mætti RÚV miklu frekar sýna frá og þá myndi ég sko með glöðu geði fylgjast með og jafnvel garga smávegis á sjónvarpið.

1 comment:

Anonymous said...

Leiðinlegt að heyra með kvefpestina, en hún lagast örugglega á 7-10 dögum án allra hjálparmeðala, svo þú verður orðin fín um helgina. Það er pottþétt!
G