Friday, October 16, 2015

I´m a dreamer

Jæja þá er komin rúm vika síðan ég bloggaði síðast. Ég er samt alltaf á leiðinni að skrifa nýja færslu, en það er bara búið að vera rosalega mikið að gera hjá mér og svo var ég veik í 2 daga og gat ekkert gert, ekki einu sinni hangið í tölvunni.

En já, þegar ég segi að það sé mikið að gera hjá mér, þá er ég ekkert að ýkja. Ég er búin að vera að vinna 3 vinnur í næstum því ár núna, ásamt því að sjá um barn og heimili og stunda ræktina á fullu. Það er alveg soldið mikið. Og ég er búin að vera að finna það uppá síðkastið að stressið og álagið var farið að segja til sín, ég var farin að vera oftar veik og þegar ég varð veik þá var ég svo lengi að ná því úr mér aftur, sem hefur aldrei verið tilfellið hjá mér áður. Mig langar frekar til að nýta frítímann minn og orku í að láta drauma mína rætast, þannig að ég ákvað að hætta í annarri aukavinnunni. Skilaði inn uppsagnabréfi í gær og mun svo hætta bara um leið og það finnst einhver í staðinn fyrir mig. Ég er nefnilega með lítið draumaverkefni sem ég er búin að vera að vinna aðeins í og senda fyrirspurnir út um allt um, og það gæti bara orðið að veruleika á næsta ári, en til þess að svo geti orðið þá þarf ég að eyða smá tíma í það. Og eins og er, þá hef ég ekki haft þann tíma og því tók ég þessa ákvörðun. Eins æðisleg og mér fannst þessi vinna og fannst leiðinlegt að segja upp, þá fann ég bara á mér að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að gera. Ég á mér marga stóra drauma, og á næsta ári verð ég 35 ára svo það er nú bara ekki seinna að vænna en að fara að láta einhverja af þeim verða að veruleika....

Annars fór ég í mælingu í vikunni hjá þjálfaranum. Var nú ekki búin að léttast mikið, en missti samt um 3% fitu (1,7 kg) og hann bar saman myndir frá því núna og þegar ég byrjaði hjá honum fyrir 2 mánuðum síðan og já, munurinn var eiginlega bara hreint út sagt ótrúlegur. Allar þessar bak og rassaæfingar og endalausu mínúturnar á stigavélinni eru að skila sér svo hrikalega vel. Rassinn var búinn að lyftast heilan helling og orðinn svona kúlulaga…..ekki flatur og lafandi haha. Er alveg alls ekki að hata það. Líka hægt að sjá gífurlegan mun á bakinu, vöðvarnir farnir að sjást í slakandi stöðu og mittið líka búið að minnka helling. Það er svo gaman að bera saman svona myndir, ég mæli eindregið með því að gera það mikið frekar heldur en að vigta sig. Vigtin segir manni bara akkúrat ekki neitt! En myndirnar ljúga aldrei. Gott að taka myndir kannski á mánaðarfresti og bera saman ;) xx
Rósa

No comments: