Pages

Friday, September 18, 2015

Body shaming

Mikið finnst mér alltaf leiðinlegt þegar fólk er að setja út á vaxtalag annarra, hvort sem er á netinu eða jafnvel bara í slúðri á milli vina. Auðvitað er enginn fullkominn og kannski er eitthvað stundum sagt á milli vina sem fer ekkert lengra, en það er ekki þar með sagt að það sé í lagi. Hver er ég, eða þú, til þess að dæma aðra fyrir hvernig þeir líta út? Þó þú sért með minni bumbu, lögulegri rass eða whatever, hefur þú þá einhvern rétt til að setja út á útlit annarrar manneskju?

Ég var að horfa á snapchat hjá einni make-up stelpu í vikunni. Rosalega sæt og skemmtileg stelpa sem gerir mjög flott make-up og er gaman að fylgjast með. Hún birti mynd af öllum líkamanum sínum (í fötum sko) og textinn sem fylgdi með var: “já ég er feit”, eða eitthvað í þeim dúr. Svo fór hún að tala um það að hún væri að fá spurningar á snappinu um af hverju hún birti aldrei myndir af öllum líkamanum sínum og hvort það væri af því að hún væri svo feit og hún vildi ekki að neinn myndi sjá það. Ég var bara alveg í sjokki yfir þessu. Í fyrsta lagi, þá er þetta make-up snap, og þá er auðvitað andlitið aðal-fókusinn! Ég hafði aldrei spáð í því hvernig líkaminn hennar liti út, enda var ég ekki að fylgjast með henni til þess. Í öðru lagi, hverjum kemur það við hvernig hún er vaxin og hvort hún sé að fela það? Hvernig nennir fólk yfir höfuð að spá í því?

Þó svo að ég sé öll inní þessu fitness-dóti, líkamsrækt og hollum mat og þess háttar, þá er ég að gera það fyrir mig eingöngu. Ég er aldrei að predika yfir vinum mínum og fjölskyldu um þessa hluti að þau verði að borða svona eða fara svona oft í ræktina. Þetta er mitt áhugamál og þó ég vilji vera vöðvastælt og fitulítil, þá er það ekki það eina rétta eða það eina sem blívar.

Fólk má vera eins og það vill og það er ekki mitt, né annarra, að dæma um hvort það sé í lagi. Hvort sem þú ert feitur, mjór eða massaður, þá hafa allir jafn mikinn rétt á því að vera þeir sjálfir án þess að nokkur sé að skipta sér af því hvernig þeir líta út.

Ég hef sjálf alveg verið frá 48 kg og uppí 68 kg, en alveg sama hvað vigtin segir, þá er ég samt alltaf sama manneskjan. Það breytist ekkert útfrá einhverri tölu sem birtist á vigtinni. Þegar ég var 48 kg fékk ég oft að heyra að ég væri alltof mjó og þyrfti að borða eitthvað. En svo þegar ég var orðin þyngri þá segir enginn neitt við mig, en þá fer fólk að tala á bak við mann hvað maður sé búinn að þyngjast. Ég skil ekki alveg af hverju, en svoleiðis er þetta bara. Er það sem sagt þannig að ef maður er mjór þá má alveg móðga mann að vild? En ef maður er í yfirþyngd þá má bara baktala mann? Hvernig væri að fólk myndi bara hætta að spá í því hvort fólk sé feitt eða mjótt og bera virðingu fyrir því að við erum öll manneskjur með tilfinningar og eigum öll jafn mikinn rétt á að virðing sé borin fyrir okkur og okkar líkama, alveg sama hvort að vigtin segi 50 kg eða 100 kg!!
 


xx
Rósa


No comments: