Pages

Thursday, March 26, 2015

Hættu í megrun!

Mig langar til að útrýma hugtakinu megrun! Mér finnst ég alltaf vera að heyra af stelpum sem ætla svo aldeilis að taka sig í gegn og byrja í “megrun”. Þær ætla að taka út sykur í 21 dag, hætta að borða glútein, drekka endalaust af vatnslosandi te, taka út nánast öll kolvetni, hætta að borða ávexti því það er svo mikill (ávaxta)sykur í þeim, byrja að mæta í ræktina tvisvar á dag, taka 10 daga detox safakúra og guð má vita hvað. Ég er með smá fréttir handa ykkur, ekkert af þessu virkar!!

Segjum að þú farir þá leiðina að taka út sykur í 21 dag og þér takist það, og í ofanálag misstir nokkur kíló og sentimetra hér og þar. En hvað gerist þegar þessir 21 dagar eru búnir? Jú, þú ferð að borða sykur aftur, og hvað gerist þá? Kílóin og sentimetrarnir koma aftur. Og oftast (vill ekki segja alltaf, en mjög oft a.m.k) enda svona öfgar á því að þú missir þig gjörsamlega í sukkið og endar aftur á byrjunarreit, ef ekki aftar. Til hvers varstu að eyða 21 degi í að lesa aftan á allar umbúðir og neita þér um ýmsan hollan og góðan mat, einungis af því að það eru einhverjar smá leyfar af sykri í honum? Til hvers var öll þessi vinna þá? Svarið er voðalega einfalt, öll þessi vinna var til einskis. Þú græddir akkúrat ekkert á þessu. Nema það eitt að geta sagt að þú lifðir af í 21 dag án þess að fá þér sykur. Sykur er ekki eitur fyrir líkamann, ef þú neytir hans í hófi, og þá allra síst ávaxtasykur!

Þó svo að ég tali um sykur í þessum texta, þá á þetta sama við um allar þessar megrunar-aðferðir sem ég nefndi í byrjun færslunnar (getur til dæmis skipt orðinu sykur út fyrir kolvetni eða glútein). Það er enginn að fara að endast alla ævi í að borða engin kolvetni, engan sykur, ekkert glútein, æfa tvisvar á dag og svo framvegis (nema náttúrulega ef um ofnæmi eða slíkt er að ræða). Þetta eru allt bara skyndilausnir, sem þú endar yfirleitt á því að tapa fyrir.

Hvernig væri að læra frekar að kunna sér til hófs? Hvort sem er í sykurneyslu, æfingum eða einhverju öðru, yfir höfuð.

Finndu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg, sem þér hlakkar til að stunda og þarft ekki að pína þig til að mæta í. Það er endalaust úrval þarna úti! Það er ekki allra að mæta í ræktina og lyfta lóðum eða dansa Zumba, enda er fullt annað hægt að gera. Það er hægt að synda, spila badminton, dansa magadans, fara í fjallgöngur, spila blak, pole fitness og guð má vita hvað! Aðalatriðið er að finna ÞÍNA hreyfingu og hafa gaman af!

Borðaðu reglulega yfir daginn hollan mat! Ekki taka út heilu fæðuflokkana, bara af því bara. Ef þú borðar of lítið þá lækkar blóðsykurinn og líkaminn kallar á sukk og svínerí! Það er alltof algengt að stelpur í megrun borða of lítið, sem endar yfirleitt með því að þær “falla” og árangurinn núllast út eins og skot. Einbeittu þér frekar að því að finna jafnvægi sem hentar þér, þannig að þér líði vel og að þú hafir næga orku fyrir verkefni dagsins.

Þó þú verðir ekki mjó á 21 degi við að gera þetta, þá er þetta eitthvað sem þú getur gert alla ævi og mun á endanum skila þér heilbrigðum líkama, alltaf.





Hættum að fara í megrun! Hugsum um heilsuna og lifum lífinu eins og við getum hugsað okkur að lifa því alla ævi.

xx
Rósa

1 comment:

Anonymous said...

Þetta er gull virðis grein! Awesome, awesome, awesome! :)