Já vökunæturnar og sukkið sem fylgdi þessari síðustu missóhelgi hafa tekið sinn toll. Vaknaði kl hálf 10 í gærmorgun til þess að fara að sækja skýrsluna í prentun og var bara alveg fárveik. En þrjóskuhausinn ég ákvað að fara samt í Borganes, í staðinn fyrir að biðja einhvern annan að fara fyrir mig. Hélt ég væri bara þreytt og þetta myndi lagast með tímanum. En það var nú ekki svo gott. Varð bara veikari og veikari. Hausverkur, ógleði, hiti og svona almenn skemmtilegheit. Við Maggi sóttum skýrsluna sem leit bara helvíti vel út. Ótrúlega gaman að fletta í gegnum hana svona plastaða og gormaða og fína. Á leiðinni til baka uppá Bifröst þá fékk ég Magga til að keyra fyrir mig þar sem ég hafði enga heilsu í það. Á miðri leið þurfti hann svo að stoppa bílinn og ég kastaði upp út í vegakanti. Alveg eins og við vinkonurnar gerðum alltaf á leiðinni á Hredda böllin þegar við vorum 16 ára og kunnum ekki að drekka áfengi. Skammaðist mín ótrúlega mikið......Fórum uppí skóla með skýrsluna og ég skrifaði undir hana og fór svo beinustu leið heim þar sem ég lagðist í dvala og er ekki enn búin að ná mér að fullu.... Er ekki búin að gera neitt síðustu daga nema að sofa eiginlega. Hef lítið sem ekkert getað borðað eða drukkið. Er að reyna það núna samt svo ég geti nú tekið þátt í að undirbúa málsvörnina okkar sem er á föstudaginn.
Að aðeins skemmtilegri fréttum. Ég fékk einkunnirnar úr prófunum í gærdag og stóð ég mig bara alveg hreint með ágætum. Lokaeinkunnirnar mínar eru svohljóðandi: 9 í Stjórnunarbókhaldi, 8,5 í Hagnýtri Hagfræði og 7,5 í Hagnýtri Lögfræði og Stjórnun og Stefnumótun. Mér gekk sem sagt mikið mikið betur í skriflegu prófunum heldur en þeim munnlegu. Kom mér svo sem ekkert mikið á óvart........
Sumardagurinn fyrsti er eftir aðeins 2 daga og þá ætlar hún Elín Mist að vera hérna hjá mér. Það er alltaf líf og fjör á Bifröst í tilefni þessa dags, en þá höldum við "opna daginn" okkar, þar sem skólinn er auglýstur og fólk getur komið að skoða. Ef ykkur langar að koma og heimsækja mig hérna í sveitina þá er þetta dagurinn.....
No comments:
Post a Comment