Pages

Friday, October 23, 2015

Hugarfar

Það eru nokkur lykilatriði sem er gott að tileinka sér þegar maður vill ná árangri í einhverju og þá skiptir alls ekki máli í hverju. Þau atriði sem ég myndi segja að væru allra mikilvægust að fara yfir hjá sér og reyna að bæta eru:
  • Hugarfar
  • Skipulag
  • Markmiðasetning
Ég skrifaði aðeins um markmiðasetningu í síðasta pósti hérna á blogginu og er oft að koma inná skipulag, en er með nýja færslu um skipulag í huganum sem kemur líklega hérna inn í næstu viku. En í dag ætla ég að tala um hugarfar og mikilvægi þess til að ná árangri.


Hugurinn er svo ótrúlega skrítið fyrirbæri, og mjög svo sterkur valdaþáttur í því hvernig okkur líður, hvernig við sjáum okkur sjálf og hvernig við tæklum allar þær hindranir sem verða á vegi okkar. Það gæti kannski hljómað ofur einfalt, en maður þarf bara að tileinka sér jákvæðni. Takast á við öll vandamál með jákvæðni og hugsa í lausnum, en ekki búa til meira mál úr hlutum en þarf að gera. Ég er alls ekki að segja að maður eigi að vera kærulaus og hugsa “þetta reddast”, það er allt annar handleggur og má ekki rugla saman. Það er ekki gott að vera of kærulaus, það kemur og bítur í rassinn á þér seinna meir. 


Tökum þetta út frá því að þú viljir taka þig á í mataræðinu, fara að hreyfa þig en hefur hingað til mistekist, af einhverjum ástæðum. Fyrsta sem þú þarft að gera er að hugsa að ÞÚ getir þetta - alveg eins og Jóna eða Gunna útí bæ gátu það. Ekki hugsa um allan óholla matinn sem þú mátt ekki borða, ekki hugsa að þú ÞURFIR að mæta í ræktina eða hvað þú getir hangið minna yfir sjónvarpinu því þú þarft að nesta þig fyrir næsta vinnudag. Hugsaðu frekar um allan góða og holla matinn sem þú getur borðað, skoðaðu hugmyndir á netinu um hvernig þú getur gert holla matinn þinn spennandi. Finndu hópatíma, ræktarfélaga, einkaþjálfara eða eitthvað sem gerir ræktina að tilhlökkunarefni, en ekki skyldu. Þegar þú ferð í svona lífstílsbreytingu þá er jákvæðni svo mikilvæg, því þú munt fá endalaust mikið af gagnrýni úr öllum áttum og það er eitthvað sem maður má ekki láta á sig fá. Þú ert að gera þitt besta og ert að gera þetta fyrir þig, engan annan, þannig að það er lang best að láta þær um eyru þjóta og sýna engin viðbrögð. Alls ekki leggjast á sama level. Það er enginn það hátt setinn að hann geti farið að gagnrýna hvað samstarfsfélagar eða skólafélagar kjósa að hafa með sér í nesti. Sitt sýnist hverjum. En einhvernveginn finnst fólki alltaf í lagi að gagnrýna þá sem er með holla nestið, og maður þarf bara að brosa og og hugsa með sér að maður viti betur. Ég hef fengið að heyra hvað kjúklingaáleggið mitt sé óhollt á meðan manneskjan borðaði vínarbrauð. Það má ekki láta svona athugasemdir draga úr sér.

Hugsaðu jákvætt, berðu höfuðið hátt og vertu stolt af því sem þú ert að gera :) 



Hver dagur er gjöf, svo við skulum gera það besta úr hverjum og einum, þannig komumst við nær og nær markmiðum okkar með hverjum degi sem líður :) 


xx
Rósa

No comments: