Þegar það er svona langt síðan maður bloggaði þá veit maður ekkert hvar maður á að byrja. En það sem er allavega nýjast að frétta hjá mér er að loksins reddaði ég mér kló fyrir þvottavélina mína og get þar af leiðandi byrjað að þvo þessar tveggja vikna birgðir af óhreinum þvotti sem hafa safnast upp hjá mér. Spennandi eða hvað....
Í síðustu viku tókst mér að togna á baugfingri þegar ég datt á línuskautunum mínum. Var að renna mér niður pínulitla brekku, en einhvernveginn var ég samt allt í einu komin á fleygiferð og sá mér ekki mögulegt að stöðva öðruvísi en með því að henda mér í grasið. Gerði það með slíkum tilþrifum að puttalingurinn minn þvældist fyrir og fékk að kenna á því. Veit ekki alveg hvernig það gerðist....en það gerðist.
BS ritgerðin mín gengur hægt, en gengur þó. Er komin með rúmlega 2500 orð og er að fara í viðtal á morgun við starfsmannastjóra N1 til að spyrja hann spjörunum úr. So to speak. Vona bara að það heppnist vel og ég fái einhverjar gagnlegar upplýsingar. Seinna í vikunni fer ég svo í viðtal við starfsmannastjóra Ölgerðarinnar til að fá enn fleiri upplýsingar.
Síðasta mánudag byrjaði ég í Herþjálfun í Heilsuakademíunni. Fékk svo miklar harðsperrur eftir fyrsta tímann að allar aðrar harðsperrur sem ég hef á ævi minni fengið fölnuðu í samanburði. Enda ekki annað hægt þegar maður er látinn gera hnébeygjur og framstig stanslaust í heila klukkustund. Eftir fyrsta tímann leið mér í alvörunni eins og fæturnir mínir væru búnir til úr brauði. Annars er þetta bara ótrúlega skemmtilegt. Gaman að fara veeel yfir mörkin og svitna eins og svín.
Komið ágætt í bili held ég....
No comments:
Post a Comment