Ég er enn á lífi, ekki hafa áhyggjur.... Því miður hef ég bara búið við netleysi síðustu daga, sem er einfaldlega ástæðan fyrir bloggleysi mínu. Það var æðislegt að hafa Möggu og vinkonur hérna í Prag og við gerðum margt margt skemmtilegt. Myndir segja meira en þúsund orð.....
En núna hef ég fréttir að færa, bæði heiman og héðan. Byrjum á fréttunum héðan. Í fyrradag gerðist ég svo (ó)heppin að fá nýjan herbergisfélaga. Stúlkan er frá Úkraínu og er hvorki meira né minna en 17 ára gömul. Hún er svo bólugrafin að annað eins hef ég ekki séð. Einnig gengur hún í fötum af afa sínum og talar svo skrítna ensku að ég skil ekki neitt í neinu...ekki einu sinni þegar ég reyni að hlusta á hana. Mér líður eins og ég gæti verið mamma hennar. Rétt í þessu tilkynnti hún mér til dæmis að hún elski pabba sinn útaf lífinu og að hann sé æðislega skemmtilegur. Ég finn sterkt fyrir öfund ykkar allra í minn garð....
En þá að fréttunum að heiman. Elín Mist hringdi í mig í vikunni til þess að tilkynna mér þær stórfregnir að hún sé með lausa tönn!! Já, litla stelpan mín er að verða stór, it´s official (eins og það hafi ekki verið official enough þegar hún byrjaði í skóla). Það versta er að ég er ekki viðstödd þennan stóra atburð. Hins vegar er ekki nema rúmlega vika þangað til að hún lendir hérna í Prag ásamt fríðu föruneyti (m og p) og ef ég verð heppin þá verður tönnin ennþá laus þegar hún kemur. Ef ég verð ennþá heppnari þá kannski dettur hún á meðan hún dvelur hér. Það er aldrei að vita. Heppnin hefur að minnsta kosti verið að leika aðeins við mig síðustu daga (fyrir utan bólugröfnu pabbastelpuna að sjálfsögðu) því ég fékk smá gleðifregnir í dag. Nafnið mitt var dregið upp úr lukkupotti Námsmannalínu Sparisjóðs Mýrasýslu og vann ég gjafabréf í boði Iceland Express. Jahá. Undur og stórmerki gerast, það er alveg greinilegt.
Annars er eitthvað undarlegt að gerast hérna í Prag þessa dagana. Í gær fór ég út í búð til að versla mat. Ákvað ég að fara í Tesco, og þurfti þar að leiðandi að taka metro (neðan-jarðar-lest). Þegar ég stend þarna í mínu mesta sakleysi að bíða eftir metro-inu labbar upp að mér maður um fertugt og biður um að fá að taka mynd af mér. Ég reyndi að spurja hann af hverju, en fékk engin svör. Hann stendur við hliðiná mér og vinur hans tekur mynd af okkur. Allt í lagi þá. Ég fer uppí metro-ið en mennirnir ekki. Hjúkket. Í dag lenti ég svo í svipaðri aðstöðu. Var að bíða eftir metro, alein aftur, þegar maður labbar upp að mér og fer að spjalla við mig. Hvað heitiru, hvaðan ertu, hvað ertu að gera í Prag og hvert ertu að fara. Ég reyndi að vera kurteis og svara, þó án allra málalenginga. Maðurinn var um 45 ára gamall, ljótur og feitur. Ekki neitt að fara að gerast þarna sko. Svo kemur metro-ið og ég vona að mér sé bjargað. Eeen nei, maðurinn eltir mig og fer að spurja mig hvort hann megi ekki fá símanúmerið mitt eða emailið mitt. Ég hló upphátt og sagði nei. Hann náði pointinu og fór. Skrítnir kallarnir hérna í Prag sko...... Á meðan á svona atvikum stendur held ég eins fast og ég get utan um töskuna mína, til vonar og vara, ef þetta skyldu nú vera ræningjar að reyna að ræna saklausu stelpuna sem ég er. Finnst svona hegðun svo skrítin.
En já, hef þetta ekki lengra í bili. Er að fara eldsnemma í fyrramálið að skoða einhvern lítinn bæ sem er staðsettur í sirka klukkutíma fjarlægð frá Prag. Þar eru einhverjar kirkjur og þess háttar skemmtilegheit sem við ætlum að kíkja á. Tók ekki þátt í að skipuleggja þessa ferð, og veit þar af leiðandi ekkert hvað við erum að fara að gera, og er búin að gleyma hvað bærinn heitir. Man þó að nafnið á honum endar á Hóra (á tékknesku þýðir Hóra fjall), en kemst vonandi að þessu öllu á morgun bara. Góða nótt.....
No comments:
Post a Comment