Þeir sem þekkja dóttur mína vita að þar er á ferðinni ein yndislegasta og ljúfasta stelpa sem til er. Og ég er ekki bara að segja það af því að ég ól hana upp (og er enn að hehe...) heldur furða ég mig oft á því hvernig ég fór að því að ala upp svona frábæra manneskju. Hún kemur mér sífellt á óvart. Ég var ekki nema rétt orðin tvítug þegar ég átti hana og hef verið ein með hana alla tíð, svo við erum ansi samrýmdar mæðgurnar. Við erum líka einhvernveginn mikið meira en bara mæðgur.
Ég var mjög meðvituð um það alveg frá byrjun að ég vildi eiga gott samband við mitt barn, var búin að taka nokkra áfanga í uppeldisfræði þar sem mikið var fjallað um tengsl á milli foreldra og barna til dæmis, og ég var alltaf með það á bak við eyrað. Ég vildi eiga þannig samband við dóttur mína að hún gæti sagt mér allt og treyst mér fyrir öllu, að við yrðum vinkonur en hún myndi samt bera virðingu fyrir mér og þeim reglum sem ég myndi setja. Ég vildi að hún yrði samviskusöm, kurteis og hamingjusöm, eins og flest allir foreldrar vilja að sjálfsögðu fyrir börnin sín. Mér finnst eins og mér hafi tekist fullkomlega ætlunarverk mitt!! Er meira og meira sannfærð um það á hverjum einasta degi! Alveg frá því að hún var hjá dagmömmu hef ég alltaf fengið svo jákvæðar umsagnir um hana, hvað hún sé kurteis, samviskusöm, dugleg, brosmild, jákvæð, áhugasöm, stundvís og góð. Ég er svo hrikalega stolt af henni :D
No comments:
Post a Comment